Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, var eini lánveitandi Dalsdals og Frjálsrar fjölmiðlunar sem keypti DV árið 2017.  Þetta kemur fram í samrunaskrá Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, og Frjálsrar fjölmiðlunar sem Samkeppniseftirlitið birti í gær.

Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson var skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar og Dalsdals. Hann hafði ekki viljað gef upp hver fjármagnaði félagið. Frjáls fjölmiðlun rak fjölmiðlanna DV, dv.is, pressan.is, eyjan.is, bleikt.is og 433.is. Í samrunaskránni segir að Frjáls fjölmiðlun hafi átt við verulega rekstrarerfiðleika að stríða og rekstur þess ekki verið sjálfbær.

Frjáls fjölmiðlun keypti DV af Pressunni í september árið 2017. Pressan var svo lýst gjaldþrota undir lok árs 2017. Þegar kaupin gengu í gegn hafði Fjárfestingarfélagið Dalurinn, sem var í eigu Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, og viðskiptafélaga hans, eignast meirihluta hlutafjár í Pressunni á grundvelli skulda Pressunnar við Dalinn.

Í yfirlýsingu frá þeim tíma kom fram að forsvarsmenn Dalsins hefðu ítrekað óskað eftir hluthafafundi til að ný stjórn yrði kjörin áður en kaupin gengu í gegn. Róbert og Björgólfur Thor hafa lengi tekist á og hafa staðið í fjölmörgum málaferlum hver gegn öðrum undanfarin ár.

Dalsmenn töldu kröfuhöfum hafi verið mismunað og handvaldar skuldir Björns Inga Hrafnssonar hafi verið greiddar af félaginu en aðrar ekki. Birni Inga var gert að greiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir króna vegna láns sem Frjáls fjölmiðlun átti að taka yfir samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands í febrúar.

Þá var Frjáls fjölmiðlun sýknuð af 15 milljóna króna kröfu Dalsins í tengslum við kaupin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í maí í fyrra.

Ritstjóri Fréttablaðsins á 5% í Torgi

Í samrunnaskránni segir að Helgi Magnússon eigi 82% í Torgi, Sigurður Arngrímsson 10% hlut, Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, eigi 5% hlut og Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri sölu markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi, 3% hlut.