Björgólfur Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, var gestur í nýjasta þætti Flugvarpsins sem er hlaðvarp um flugmál á Íslandi í stjórn Jóhannesar Bjarna Guðmundssonar.

Björgólfur fer yfir feril sinn hjá Icelandair Group, allt frá því að hann tók við flugfélaginu rétt fyrir fjármálahrunið 2008. Einnig ræðir hann um samkeppnina við WOW, samskiptin við stéttarfélögin, fjárfestingu í flugrekstri á Grænhöfðaeyjum sem hann hefur enn trú á og margt fleira.

Númer tíu þúsund í röðinni

Björgólfur segir frá því að eitt sinn hafi hann verið í göngu austur á fjörðum á þeim tíma þegar hann var forstjóri Icelandic Group. Eftir gönguna hafi hann séð að Gunnlaugur Sigmundsson, þáverandi stjórnarformaður Icelandair Group, hafi reynt að hringja til að bjóða honum forstjórastöðu flugfélagsins.

„Sagan segir að hann hafi verið búinn að leita til mjög margra einstaklinga um að taka félagið að sér. Ég var kannski númer 10 þúsund í röðinni,“ segir Björgólfur hlægjandi. „Það var búið að testa og máta alla í stólinn en enginn hafi viljað taka það að sér. Mér fannst einhver spenna í því og ákvað bara að láta vaða.“

Björgólfur segir þó að hann hafi, líkt og endurskoðandi þurfi að gera, skoðað efnahagsreikning félagsins, sjóðstreymið og hvað reksturinn var að skila af sér.

„Í mínum huga var það ljóst að félagið var ekkert mjög burðugt fjárhagslega. Það var ekki mikið handbært fé í félaginu og mjög mikið framundan sem var búið að taka ákvarðanir um,“ segir hann og nefnir endurnýjun á 757 vélunum með skemmtikerfi í sætunum ásamt því að búið var að festa kaup á Airbus A330 fraktflugvélum.

„Sem betur fer tókst okkur að afstýra því að kaupa þessar cargo vélar sem hefði verið algjört feigðarflan að mínu viti.“

Björgólfur tók við sem forstjóri Icelandair Group í janúar 2008. „Svo kemur hrunið í beinu framhaldi.“ Aðgangur að fjármagni var takmarkaður en hins vegar hafi gengið vel að semja við alþjóðlega viðskiptaaðila, líkt og Rolls Royce eða flugvélaleigusala. Einnig hafi ákvörðunin um að bæta Seattle við sem áfangastað sumarið 2009 verið einn anginn í því að félagið komst í gegnum þessa erfiðu tíma.

Á þessum tíma var Bogi Nils Bogason, núverandi forstjóri Icelandair, nýkominn inn sem fjármálastjóri. Þeir Björgólfur settu línuna á að aðrir stjórnendur og starfsmenn einbeittu sér alfarið að því að halda rekstrinum gangandi en þeir tveir skyldu hafa áhyggjur af peningunum. „Þetta virkaði bara déskoti vel,“ segir Björgólfur.

Markaðsmál WOW upp á tíu

Jóhannes Bjarni spyr Björgólf hvort flugfélagið hafi ekki stækkað nógu hratt og þannig kallað á tilurð WOW. Björgólfur segist ekki vera viss og tekur sem dæmi að Iceland Express, sem hóf Ameríkuflug árið 2012, hafi ekki lifað af.

Flugfélagið WOW hafi þó komið allt öðru vísi að sínum málum en Iceland Express. „Það var ljóst að þeir voru mjög öflugir í markaðsmálum og kunnu þetta alveg upp á tíu,“ segir Björgólfur.

Þó svo að WOW hafi flogið á sömu staði og Icelandair þá hafi þeir einnig flogið á aðra staði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Hefðum við getað barið meira á þeim? Áttum við að gera það? Sumt megum við, sumt ekki út af samkeppnislögum. Ég held að við höfum gert þetta mjög heiðarlega gagnvart þeim en auðvitað var alltaf samkeppni í verðum. Árið 2012 hefðum við getað bætt við fleiri flugum en ég veit ekki hvort það hefði skilað félaginu bættri arðsemi.“

„Samkeppnin við WOW var dálítið skemmtileg, hún var snörp.“ Hins vegar segir hann að aðal samkeppnin hafi mun fremur verið við önnur félög. „WOW var ekki af þeirri stærð að það væri endilega að trufla Icelandair mikið.“

Björgólfur telur að vöxturinn hjá WOW, sem varð gjaldþrota árið 2019, hafi verið alltof mikill og hraður. Innviðirnir hafi ekki ráðið við það.

Ákvarðanir í markaðsmálum teknar alltof hratt og illa ígrundaðar

Björgólfur sagði af sér sem forstjóri Icelandair á afmæli sínu þann 27. ágúst 2018. Ákvörðunin hafi meðal annars verið tekinn vegna breytinga sem gerðar voru á sölu- og markaðsstarfi félagsins.

„Ég var í brúnni þegar ákvaðanir voru teknar í markaðsmálum. Þær voru teknar alltof hratt. Það var verið að breyta samsetningunni þannig að markaðsstarfið úti á markaðnum er dregið niður, okkar skrifstofum úti í heimi lokað og í raun vorum við að taka það skref að setja allt á netið. Það var einfaldlega gert of hratt. Það var ekki ígrundað nógu vel og ekki undirbúið þannig að það væri eitthvað annað sem væri að taka þá bolta sem féllu af borðinu þegar við fórum í þessar lokanir.“

„Ég horfði á það þannig að aldur og fyrri störf hefðu átt að tikka og segja að þetta væri að gerast of hratt. Kannski var þetta líka svolítið fjarri mér þegar þetta er gert,“ segir Björgólfur og bætir við að honum hafi fundist ábyrgðin liggja hjá sér. „Mér fannst í raun bara sanngjarnt gagnvart öllum, ekki síst félaginu og starfsfólkinu, að ég myndi víkja.“

„Það að stýra félagi eins og Icelandair Group tekur í. Ég var búinn að velta fyrir mér hvenær kæmi að lokapunktinum hjá mér. Það var alveg ljóst þegar við gerum breytingar árið 2017 að ég var alveg tilbúinn að stíga út.“

Bjartsýnn á framtíð Íslands og Icelandair

Spurður um stöðu flugfélagsins í dag þá segir Björgólfur að töluverð óvissa ríki enn yfir félaginu þar sem óljóst sé hvenær tökum verði náð á veirunni. Hann er þó bjartsýnn fyrir framtíð Icelandair og Íslands þegar faraldrinum fer að linna.

„Ég held að Ísland verði mjög vinsælt, að það verði horft mjög til ferðalaga hingað þegar þetta fer að hreyfast. Icelandair er þá í lykilstöðu.“

Talið barst svo að hlutafjárútboði Icelandair sem fór fram í september síðastliðnum. Björgólfur segir þátttöku í útboðinu og þróun hlutabréfaverðs í kjölfarið merki um trú á stjórn og framtíð félagsins.

„Mér finnst stjórn og stjórnendur hafa spilað mjög vel úr mjög erfiðri stöðu. Bogi hefur gert, að mér finnst, alveg frábæra hluti í því að sigla félaginu í gegnum þetta. Við sjáum það bara að ef þú ferð í svona hlutafjárútboð eins og var gert síðastliðið haust að þá er horft til stjórnenda og forstjóra félagsins. Hann fær bara mjög sterkan stimpil eins og við sjáum í þátttökunni og hvernig hlutabréfaverð þróast í framhaldinu, hver sem skýringin er á því þegar félagið er nánast tekjulaust. Það finnst mér sýna trú á framtíðina og á stjórnendur félagsins.“

Tók náminu alvarlega eftir krabbameinið

Björgólfur segist ekki hafa verið mikill námshestur þegar hann var í Menntaskólanum á Akureyri (MA). „Það var svo margt annað sem var að glepja hugann hvort sem það var Sjallinn eða einhverjar íþróttir.“ Það hafi þó breyst þegar hann fór í háskóla.

„Ég veiktist dálítið hressilega á lokaárinu í MA. Ég fékk krabbamein sem þurfti að vinna úr. Ég tók ársfrí eftir menntaskólann og þá fór maður kannski að hugsa þetta öðruvísi. Maður tók náminu svolítið alvarlegar þegar maður fór svo í háskólann.“

Hann segist hafa unnið á skrifstofu hjá Kaldbak á Grenivík og „fann þar að ég hafði gaman að vinna með tölur“. Sá sem stýrði því fyrirtæki benti honum á Sigurð Stefánsson, endurskoðanda Kaldbaks. Björgólfur vann svo með háskólanum á skrifstofu Sigurðar. Hann hafi í kjölfarið ákveðið að fara í endurskoðendanám og kláraði löggildingu árið 1985.

Árið 1989 stofnaði hann svo skrifstofu á Akureyri, ásamt skrifstofu Sigurðar og KPMG. Þar starfaði hann í tvö og hálft ár en vildi svo meira „action“. Þá hafi ferillinn legið í átt að fyrirtækjarekstri.