*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 8. mars 2021 12:35

Björgólfur gæti stórgrætt á Deliveroo

Verðmæti Deliveroo, sem er á leið á markað, hefur margfaldast frá því Novator fjárfesti í félaginu fyrir fimm árum.

Ingvar Haraldsson
Umsvif Deliveroo jukust verulega á síðasta ári.
epa

Heimsendingarþjónustan Deliveroo er á leið á markað í London. Talið er að félagið verði metið á allt að 10 milljarða dollara, um 1.300 milljarða króna. Meðal hluthafa í félaginu eru netrisinn Amazon og Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar. 

Á vef Novator segir að fjárfestingafélagið hafi keypt hlut í Deliveroo árið 2016. Í frétt FT frá því í ágúst árið 2016 sögðu heimildarmenn blaðsins að félagið væri metið á öðru hvoru megin við milljarð dollara, um 130 milljarða króna. Nú telur FT hins vegar að félagið verði metið á allt að 10 milljarða dollara þegar það verður skráð á markað, um 1.300 milljarða króna, og kann félagið því að hafa tífaldast að verðmæti á fimm árum.

Deliveroo lauk 180 milljóna dollara fjármögnunarumferð í janúar þar sem það var metið á um 7 milljarða dollara. Talið er að við skráninguna muni félagið sækja sér aukið fjármagn og einhverjir núverandi hluthafa selja í félaginu.

Aukin umsvif en áfram tap í faraldrinum

Deliveroo birti í morgun frekari upplýsingar um skráninguna, þar sem fram kom að þrátt fyrir 54% tekjuvöxt á síðasta ári þar sem heimsendingum fjölgaði til muna í heimsfaraldrinum hafi félagið tapað 224 milljónum punda á síðasta ári, sem er þó minna en 317 milljóna punda tap árið 2019. 

FT bendir þó á að það geti verið áhyggjuefni að félaginu hafi ekki tekist að skila hagnaði þrátt fyrir að flestir veitingastaðir hafi þurft að treysta á heimsendingar í heimsfaraldrinum. Deliveroo segist hinsvegar að félagið muni leggja áherslu á vöxt umfram hagnað næst árin.

Í gögnunum kemur fram að hverjum hlut Will Shu, stofnanda og forstjóra Deliveroo, muni fylgja tuttugu atkvæði á hluthafafundum næstu þrjú árin en almennir hluthafar hafi eitt atkvæði fyrir hvern hlut.

Deliveroo sinnir um 6 milljónum viðskiptavina og er með meira en 100 þúsund sendisveina og sendimeyjar á sínum snærum sem flestir notast við reiðhjól eða mótorhjól. Um 115 þúsund veitingastaðir nýta sér heimsendingarþjónustu Deliveroo.