Skuldabréf, sem útgefið var af einstaklingi,og fjárfestingasjóður Fyrirtækjabréfa Landsbankans keypti á 400 milljónir króna árið 2005 var útgefið af Björgólfi Guðmundssyni, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Björgólfur var þá aðaleigandi og formaður bankastjórnar Landsbankans. Eftirstöðvar bréfsins eru 190 milljónir króna í dag. Nýi Landsbankinn (NBI) hefur vísað málinu til rannsóknar hjá Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og Fjármálaeftirlitinu hefur verið gert viðvart. Þá hefur Rannsóknarnefnd Alþingis fengið afhent öll gögn um kaupin á skuldabréfi Björgólfs.

Andvirði bréfsins nam 400 milljónum króna þegar það var keypt. Greitt var af skuldabréfinu framan af en síðar var hluti af eftirstöðvum þess skuldajafnaður. Nú nema eftirstöðvar bréfsins um 190 milljónum króna.

Í tilkynningu frá NBI vegna málsins segir að engar bókanir finnist í fundargerðum Fjárfestingasjóðs Fyrirtækjabréfa Landsbankans er varða ákvörðunina um kaupin á skuldabréfi Björgólfs og að gjörningurinn hafi verið gerður í andstöðu við almenna starfsmenn. Enn fremur segir það að allir þeir starfsmenn sem tóku ákvörðun um kaupin hafi hætt störfum fyrir bankann og Landsvaka, sem rekur verbréfa- og fjárfestingasjóði bankans.