Björgólfur Guðmundsson, fyrrum formaður bankaráðs og aðaleigandi Landsbankans, hefur ekki verið boðaður í yfirheyrslur samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Hann er sem stendur staddur í London í fríi.

Þó hafa borist fyrirspurnir frá sérstökum saksóknara til lögmanns Björgólfs um hvar hann sé staddur um þessar mundir ef ske kynni að það þyrfti að kalla hann til vegna yfirstandandi rannsóknar embættisins.

Sérstakur saksóknari rannsakar nú umfangsmikla allsherjarmarkaðsmisnotkun í gamla Landsbankanum. Að minnsta kosti sjö fyrrum starfsmenn bankans hafa verið yfirheyrðir og einn núverandi starfsmaður dótturfélags nýja Landsbankans. Þá hefur verið óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, og Ívari Guðjónssyni, fyrrum forstöðumanni eigin viðskipta bankans. Þeirri beiðni hefur verið mótmælt af lögmönnum hinna grunuðu. Héraðsdómari mun tilkynna um úrskurð sinn klukkan 14 í dag.