Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, segir að væntanlega hafi Íslendingar farið of geyst í efnahagsmálum á síðustu árum.

Í ræðu sinni á aðalfundi bankans sagði hann að spyrja mætti hvort við hefðum farið of geyst; svarið væri væntanlega já.

„Höfum við ekki öll gert eitthvað á þessum árum sem eftir á að hyggja var ekki skynsamlegt eða hefði mátt bíða eða ekki skilað því sem stefnt var að?“ spurði Björgólfur og sagði að það gilti jafnt um fyrirtæki, stjórnendur þeirra, fjölskyldur og einstaklinga.

„Eftir sem áður er ég þeirrar skoðunar að við gerðum rétt. Við nýttum byrinn sem bættar aðstæður heima fyrir og framboð af ódýru fjármagni á alþjóðamörkuðum gaf okkur,“ sagði Björgólfur.

Björgólfur sagði að mistök hefðu að sjálfsögðu verið gerð, en þau yrðu ekki aftur tekin. „Við getum lært af þeim og þau geta oft af sér góða hluti ef rétt er á málum haldið. Og við skulum ekki heldur gleyma því að erfileikar á fjármálamörkuðum um þessar mundir eru alþjóðlegir og valda öllum þjóðum erfiðum áföllum,“ sagði hann.

„Eitt af því sem ég hef lært á minni ævi og vill minna hér á er að þrátt fyrir allar nýungar og umbætur á fjármálamörkuðum og fjármálastarfsemi þá eru lögmálin alltaf þau sömu. Það kostar alltaf að eyða því sem ekki er til. Gildir einu hvort það eru þjóðfélög, fyrirtæki eða einstaklingar.

Við Íslendingar lifum á tekjum erlendis frá. Við getum aðeins eytt því sem við öflum í erlendum gjaldeyri. Ef við eyðum umfram það þá verðum við að borga fyrir það með einum hætti eða öðrum, - í verðbólgu, falli krónunnar eða einhverju sem knýr okkur til að herða ólarnar og greiða skuldirnar. Þetta einfalda lögmál heldur alltaf gildi sínu,“ sagði Björgólfur Guðmundsson á aðalfundi Landsbankans.