Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa átt sér stað viðræður á milli eigenda hlutafélagsins Lynghaga ehf. og Björgólfs Guðmundssonar, formans stjórnar Landsbankans, um kaup þess síðarnefnda á hlutabréfum Lynghaga í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Lynghagi ehf. á 8% hlut í Árvakri og telst til þess hóps sem nú er í minnihluta í félaginu. Að sögn Hallgríms Gunnarssonar, forstjóra Ræsis og stjórnarformanns Lynghaga, er á þessu stigi málsins ekkert hægt að segja til um niðurstöðu viðræðna. "Menn ræða mikið saman en það er ekkert að fregna á þessari stundu," sagði Hallgrímur í samtali við Viðskiptablaðið. Björgólfur Guðmundsson sagði að málið væri í vinnslu en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hugsanleg kaup.

Fyrir skömmu samþykkti hluthafafundur Árvakurs að auka hlutafé félagsins um 500 milljónir króna að tillögu stjórnar félagsins. Allt hlutaféð seldist og tóku allir hluthafar þátt í hlutafjáraukningunni í hlutfalli við þeirra eign í félaginu.

Viðskiptablaðið sagði frá því í síðasta tölublaði að þreifingar hefðu verið á milli einstakra hluthafa Árvakurs og stjórnenda FL Group um sölu á hlut þeirra í félaginu til FL Group. Hafa viðræður átt sér stað við stjórnendur FL Group um að félagið keypti út þann hóp sem telst nú vera í minnihluta innan Árvakurs. Ekkert hefur komið út úr þeim viðræðum ennþá. Björgólfur tengist með beinum eða óbeinum hætti félögum sem sem fara nú með 63,2% hlut í Árvakri.