Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, hefur sent frá sér upplýsingar um eignir sínar og skuldbindingar gagnvart bankanum.

Heildareignir Björgólfs í ársbyrjun 2008 námu samtals 143 milljörðum króna og höfðu þá lækkað um 26 milljarða frá miðju ári 2007. Nú er áætlað að verðmæti þessara eigna sé 15-27 milljarðar króna, þannig að þær hafa lækkað um allt að 150 milljarða króna frá miðju ári 2007.

Skuldbindingar upp á 58 milljarða króna við Landsbankann

Skuldbindingar Björgólfs við Landsbankann hafa hækkað mikið frá ársbyrjun 2008, meðal annars vegna gengishruns krónunnar, og nema nú um 58 milljörðum króna.

Í yfirlýsingu Björgólfs segir að bróðurpartur skuldbindinganna við Landsbankann séu ábyrgðir fyrir fjárfestingafélagið Gretti tengdar Eimskipi og Icelandic, eða um 50 milljarðar króna. Ætla megi að upp í þessar skuldir fáist eignir sem ekki séu veðsettar í öðrum lánastofnunum að lágmarki 12 milljarðar króna.

Hreinar skuldir 31-43 milljarðar króna

Samkvæmt þessu má ætla að skuldbindingar Björgólfs umfram eignir nemi 31-43 milljörðum króna gagnvart Landsbankanum.

Lánin til Grettis sögð fyrir tíð Björgólfs sem meirihlutaeiganda

Tekið er fram í yfirlýsingunni að upphaflega hafi Landsbankinn lánað Gretti til að kaupa hlutabréf í Eimskipi og Icelandic þegar Grettir hafi verið í meirihlutaeigu annarra en Björgólfs. Björgólfur hafi eftir að hann hafi orðið aðaleigandi gengist í persónulegar ábyrgðir umfram skyldu sína til að treysta veð bankans og því falli nú allar skuldir Grettis á hann. Þá segir að stjórn Grettis muni óska eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Engin verðmæti eftir nema í West Ham

Þær eignir Björgólfs sem um ræðir hér að ofan eru hlutir, beinir og óbeinir, í Landsbanka Íslands, Straumi Burðarási, Eimskipi, Icelandic Group og West Ham. Eina eignin sem ekki hefur verið tekin yfir af ríkinu, færð niður eða afskrifuð að fullu, er West Ham.

Í yfirlýsingu Björgólfs segir að grein verði gerð fyrir eignum og skuldum við aðrar lánastofnanir síðar, þegar þær liggi endanlega fyrir.