Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbanka íslands, hefur staðfest að hann styður kauptilboð Eggerts Magnússonar, formanns Knattspyrnusambands Íslands, í breska knattspyrnufélagið West Ham United, segir í frétt á vefsíðunni sportinglife.com.

Vefsíðan vitnar í tilkynningu, sem fjárfestahópurinn hefur sent frá sér. Viðskiptablaðið hefur ekki fengið tilkynningu um stuðning Björgólfs og ekki náðist í hann þegar Viðskiptablaðið reyndi að ná tali af honum.

Í tilkynningunni segir:  "Íslenski fjárfestirinn Björgólfur Guðmundsson hefur staðfest að hann mun styðja kauptilboð Eggerts Magnússonar í West Ham United fjárhagslega."

Talið er að kauptilboð Eggerts í West Ham nemi 75 milljónum punda, sem samsvarar um 9,7 milljörðum króna, ásamt því að fjárfestahópurinn mun taka yfir skuldir samtals um 22,5 milljónir punda.

Í samtali við Viðskiptablaðið á þriðjudaginn sagð talsmaður Björgólfs að Björgólfur hefði ekki enn ákveðið hvort hann myndi styðja kauptilboð Eggerts, en bætti við að það væri ekkert leyndarmál að hann væri áhugasamur um tilraunir Eggerts.