Gestastofa Tónlistar- og ráðstefnuhúss var opnuð í dag  að viðstöddum fjölda gesta.

Í fréttatilkynningu segir að í hinni nýju gestastofu verði almenningi gefinn kostur á að fá upplýsingar um hið nýja Tónlistar- og ráðstefnuhús auk þess sem þaðan verði hægt að fylgjast með byggingu þess.

Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Portusar, opnaði Gestastofuna formlega ásamt Maríu Björk Óskarsdóttur, framkvæmdastjóra Gestastofu, með því að afhjúpa glæsilegan 10 metra langan útsýnisglugga sem vísar út að framkvæmdasvæðinu við Austurhöfnina þar sem Tónlistar- og ráðstefnuhúsið rís.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ávarpaði gesti.

Í ræðu sem Björgólfur Guðmundsson hélt að þessu tilefni sagði hann að á meðan efnahagsaldan lemur okkur af sem mestum krafti verðum við að halda okkur fast, vinna áfram af metnaði og öryggi en fara að öllu með gát.

„Vonandi harðnar ekki svo á dalnum að við þurfum að breyta áformum okkar hér. Við höldum áfram og siglum af festu inn í framtíðina með það að leiðarljósi að fylla tónlistarhúsið af fólki og tónum og gerum það í trausti þess að efnahagsvindar breyti ekki áætlunum okkar og beri okkur af leið,“ sagði Björgólfur í ræðu sinni.

Gestastofan opnar fyrir almenningi á laugardag, 12.júlí, og verður þar eftir opin alla daga vikunnar.

Opið verður frá kl.10-17 virka daga og um helgar frá kl.13-17. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.