Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans, og Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmaður í Landsbankanum í Lúxemborg, hafa verið ákærðir af rannsóknardómara í Frakklandi vegna lána sem Landsbankinn í Lúxemborg veitti fyrir hrun bankakerfisins.

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins er greint frá því að alls séu níu ákærðir í málinu, þar á meðal Daninn Torben Bjerregaard Jensen, Svíinn Olle Lindfors og Belginn Failly Vincent, en þeir voru allir yfirmenn í bankanum í Lúxemborg.

Í frétt Mbl.is segir að viðskiptavinir Landsbankans í Lúxemborg telji sig hlunnfarna eftir að skiptastjóri bankans fór að innheimta ákveðna tegund lána sem voru veitt fyrir hrun, eða á árunum 2006 til 2008. Í stað þess að fá fulla greiðslu fyrir fékk fólkið aðeins um 25% af láninu greitt út á meðan 75% fjármunanna voru færðir í eignastýringu.