Björgólfur Jóhannsson hættir sem forstjóri Samherja, að því er fram kemur í tilkynningu frá Samherja . Hann tók við starfinu í kjölfar umfjöllunar Kveiks um meinta mútugreiðslur Samherja í Namibíu í nóvember 2019. Upphaflega stóð til að Björgólfur léti af störfum hjá Samherja í kringum mánaðamótin mars/apríl á síðasta ári , þegar Þorsteinn Már Baldvinsson tók við á ný sem forstjóri. Síðan þá hafa þeir hins vegar báðir setið í forstjórastóli en Björgólfur hefur haft umsjón með málefnum er tengjast rannsókn á Samherja í Namibíu. Þorsteinn Már verður einn forstjóri á ný.

Í morgun var greint frá því að DNB yrði ekki ákært vegna tengsla félagsins við útgerð Samherja í Namibíu.

„Þær ásakanir sem hafðar hafa verið uppi á hendur Samherja eru nú komnar í farveg fyrir dómstólum. Þar gefst loks tækifæri til hreinsa nöfn þeirra sem ranglega eru sakaðir, ekki með brotakenndum frásögnum í fjölmiðlum, heldur með kerfisbundnum, réttum og lögmætum hætti. Þannig hefur norski saksóknarinn nú komist að þeirri niðurstöðu að ásakanir um peningaþvætti eigi ekki við rök að styðjast og ekkert refsivert hafi átt sér stað í viðskiptum DNB bankans og Samherja og ákveðið að fella málið niður. Við þessar aðstæður þegar Björgólfur lætur af störfum, færir stjórn Samherja honum þakkir fyrir hans mikilvæga hlutverk og framlag á þessum óvenjulegu tímum. Hann reyndist félaginu ómetanlegur styrkur þegar mest á reyndi.“ segir í tilkynningu á vef Samherja.

„Það blandast engum hugur um það hversu mikilvægt það var fyrir Samherja að fá Björgólf til liðs við okkur. Það veitti svo sannarlega ekki af manni með hans afl og eiginleika. Ég er honum þakklátur fyrir einstakt samstarf og mikla vináttu sem hann hefur sýnt okkur,“ er haft eftir Þorsteini Má.

Björgólfur hefur þó ekki lokið störfum fyrir Samherja þar sem hann hefur verið kjörinn formaður hlítingarnefndar Samherja en sú nefnd hefur yfirumsjón með regluvörslu og stjórnarháttum innan samstæðu Samherja. Mun hann stjórna skráningu og formlegri innleiðingu slíkra reglna ásamt öðrum ráðgjafastörfum fyrir Samherja eftir því sem tilefni verður til.

Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 kom fram að það stefndi á að innleiðingu á sérstöku kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu innan samstæðunnar. „Markmiðið er að Samherji verði leiðandi á sviði stjórnunar- og innra eftirlits í sjávarútveginum á heimsvísu,“ sagði í skýringu við ársreikninginn.