Björgólfur Thor Björgólfsson segist ekki hagnast um krónu við kaup Watson á Actavis, fyrr en eftir þrjú ár í fyrsta lagi. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði hann að með tímanum geti hann orðið einn af stærstu hluthöfum Watson, líkt og hann var hjá Actavis.

Lánadrottnar Actavis og Björgólfs Thors Björgólfssonar segjast sáttir við söluna. Deutche bank, sem er þeirra stærstur, þarf að afskrifa um 43 milljarða í tengslum við hana. Slitastjórn Landsbankans, sem er stærstur innlendra lánadrottna, telur að kaupin séu kröfuhöfum hagstæð. Endurheimtur séu betri en gert hafi verið ráð fyrir.

„Ég held að þeir beri höfuðið hátt frá þessu, ég mun að minnsta kosti gera það,“ sagði Björgólfur og bætti því við að hann telji alla verða sátta við sitt og að hann muni sjálfur geta farið aftur í gang í fyllingu tímans.