„Á meðan enn er hrópað um Icesave fá allir milljarðarnir, sem soguðust í hítina í Sjóvá, sparisjóðunum og Seðlabanka, litla athygli. Það hentar enn að hrópa í móðursýki um skuldirnar sem leggjast á börnin og barnabörnin.“

Þetta segir Björgólfur Thor Björgólfsson í pistil á heimasíðusíðu sinni.

Tilefni pistilsins er fréttaflutningar af greiðslu slitastjórnar Landsbankans sem þegar hefur greitt 677 milljarða króna af forgangskröfum í þrotabú bankans. Bent hefur verið á að þessi upphæð samsvari því sem Íslendingar hefðu átt að greiða fyrir síðasta Icesavesamninginn sem gerður var við Breta og Hollendinga.

Björgólfur grípur umræðuna á lofti og vísar til þess að frá upphafi hafi hann haldið því fram að eignir Landsbankans dygðu fyrir Icesave. „[ .. ] varaði ég líka við að viðbrögð við vandanum gætu reynst afdrifaríkari en vandinn sjálfur og þar reyndist ég einnig sannspár, því miður,“ segir Björgólfur.

Björgólfur segist ávallt hafa bent á að rétt væri að halda vel um eignir bankans og að strax á síðasta ári hafi verið greint frá því að bú Landsbankans ætti allt að 99 prósent upp í forgangskröfur.

Hann veltir því fyrir sér hví hafi verið deilt og spyr að lokum hverjir hafi séð sér hag í að gera „ógnvekjandi Grýlu úr Icesave,“ eins og hann sjálfur kemst að orði:

„Getur verið að það hafi hentað ýmsum stjórnmálamönnum vel að sameina þjóðina í ofsafengnum viðbrögðum við sameiginlegum óvini? Er ekki hugsanlegt, að ýmis önnur mál hafi fallið í gleymsku og dá á meðan menn froðufelldu um þá þrælakistu sem biði íslenskra barna?“