Bætt afkoma Icelandair Group á síðasta ári skýrist fyrst og fremst af mikilli aukningu í farþegatekjum hjá Icelandair.

Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í uppgjörstilkynningu frá félaginu en samkvæmt ársuppgjöri félagsins, sem birt var fyrir stundu, nam hagnaður Icelandair Group eftir skatta og fjármagnsliði um 4,6 milljörðum króna, samanborið við tap upp á 10,7 milljarða árið áður.

Björgólfur segir að árið 2010 sé eitt viðburðarríkasta ár í sögu félagsins. Þannig hafi félagið skilað besta rekstrarárangri frá upphafi og niðurstaðan sé mun betri en upphaflegar áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir og einnig betri en síðasta afkomuspá félagsins gaf til kynna.

Rekstrarhagnaður félagsins var um 12,6 milljarðar króna en félagið hafði fyrr á árinu gefið út tilkynningu þar sem spáð var 11,5 milljarða króna rekstrarhagnaði.

Þá segir Björgólfur að starfsfólk félagsins hafi sýnt fádæma sveigjanleika og áræðni í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli í apríl síðastliðnum.

„Þrátt fyrir að eldgosið hafi verið félaginu kostnaðarsamt til skemmri tíma þá er það mín trú að landkynningin sem gosið olli muni til lengri tíma skila sér í fjölgun ferðamanna til landsins,“ segir Björgólfur.

Loks lauk fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins á árinu og segist Björgólfur vera ánægður með árangurinn.

Endurskipulagningin skiptist í þrjá meginþætti: útgáfu nýs hlutafjár, breytingu skulda stærstu lánveitenda í hlutafé og lækkun vaxtaberandi skulda vegna sölu eigna. Í kjölfarið hækkar eiginfjárhlutfallið úr 16,4% í lok árs 2009 í 33,7% í lok árs 2010.

Ekki gert ráð fyrir jafn góðu ári í ár

„Við höfum einfaldað stefnu félagsins og mun áherslan verða á kjarnastarfsemina sem byggir á leiðakerfi Icelandair og tengdum rekstri,“ segir Björgólfur.

„Við gerum ekki ráð fyrir að ná jafn góðri afkomu á árinu 2011 og við gerðum á árinu 2010. Olíuverðshækkanir munu draga úr arðsemi ásamt því að gert er ráð fyrir lækkunum á meðalfargjöldum. Jafnframt er líklegt að væntanlegar skatta- og gjaldhækkanir hafi neikvæð áhrif á eftirspurn og rekstur samstæðunnar.“

Þá segir Björgólfur að samningar séu lausir við alla starfshópa hjá félaginu og við þær aðstæður ríki veruleg óvissa, þó vonast sé eftir því að niðurstaða samninga verði ásættanleg fyrir alla aðila.

Sjá fyrri frétt um uppgjör Icelandair Group árið 2010