Nú þegar sér fyrir endann á endurskipulagningu Icelandair Group má gera ráð fyrir því að stjórnendum samstæðunnar sé nokkuð létt. Mikil vinna hefur farið í það síðustu misseri að endurskipuleggja bæði rekstur og markmið félagsins.

Fram kom í tilkynningu frá félaginu af þessu tilefni að daglegur rekstur samstæðunnar hafi gengið vel undanfarið en há fjármagnsgjöld og miklar skammtímaskuldir hafi haft neikvæð áhrif á stöðu félagsins.

„Það er ljóst að félagið var selt dýru verði frá FL Group árið 2006, þegar félagið fór á markað í núverandi mynd,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um slæman efnahagsreikning félagsins miðað við góðan rekstur dótturfélaganna.

„Skuldsetningin var þannig að það var of stór hluti skulda í skammtímalánum og ekki búið að skipuleggja efnahagsreikninginn með réttum hætti,“ segir Björgólfur.

„Þá voru jafnframt háar fjárhæðir í óefnislegum eignum og það hefur verið vandamál síðan. Það var í anda þess tíma, menn voru mjög kaldir í því að kaupa félög.“

Fyrir þá sem horfa á þetta utan frá lítur út fyrir að sjóðir vel stæðs rekstrarfélags hafi verið tæmdir á sínum tíma og félaginu skilað aftur á markað skuldum vafið með litla sjóði. Er það rétt?

„Það er rétt að það var búið að byggja upp mjög góða sjóði í félaginu,“ segir Björgólfur.

„Sigurður Helgason var stjórnandi hér áður. Hann skilur flugrekstur mjög vel enda búinn að vera vakinn og sofinn yfir þessu lengi. Hann vissi það, og þetta á við í öllum flugrekstri, að reksturinn þarf að hafa aðgang að miklu reiðufé. Menn þurfa annað hvort að hafa mikið reiðufé á milli handanna eða aðgang að einhvers konar lánalínum. Sigurður var búinn að byggja hér upp mjög sterka stöðu hjá gömlu Flugleiðum. Það var það sem menn greinilega sáu og nýttu sér. Síðan taka þeir stöðu í flugfélaginu sem slíku og selja það aftur árið 2006 en reiðuféð var farið. Orka hluthafanna fór í að kaupa félagið af FL Group og eftir það var ekki mikil orka eftir til að styðja við reksturinn.“

_____________________________

Nánar er rætt við Björgólf í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Þar tjáir hann sig um stöðu félagsins eftir að það var selt út úr FL Group og hvernig farið var með það í höndum FL Group, framtíðarhorfur félagsins, endurskipulagninguna, sem nú er á lokastigi, og kjaradeilur við starfsmenn.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .