Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir í afkomutilkynningu frá félaginu að á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra hafi starfsemin gengið vel og útlit hafi verið fyrir gott rekstrarár þó að áætlanir hafi gert ráð fyrir tapi á fjórða fjórðungi. Atburðirnir á Íslandi í október og afleiðingar þeirra hafi hins vegar gjörbreytt rekstrarforsendum fjórðungsins. Meðal annars vegna þess líti hann á niðurstöðu af rekstri ársins sem ákveðinn varnarsigur.

„EBITDA ársins nam 4,8 milljörðum króna, en EBITDA var neikvæð um 2,3 milljarða á fjórða ársfjórðungi. Tap ársins nam 7,5 milljörðum króna en tap fjórða ársfjórðungs var 10,6 milljarðar króna. Þar af nam afskrift óefnslegra eigna ríflega 6,4 milljörðum króna, en við mat þeirra er meðal annars tekið mið af verri stöðu í viðskiptaumhverfi einstakra félaga í samstæðunni en áður.

Undanfarna mánuði höfum við unnið með viðskiptabanka félagsins að því að endurskipuleggja fjármagnsskipan félagsins. Markmiðið er að aðlaga endurgreiðsluferli skulda að greiðslugetu samstæðunnar til lengri tíma. Við gerum ráð fyrir að vinnu þessari ljúki á næstu mánuðum.

Ljóst er að árið 2009 verður krefjandi rekstrarár fyrir Icelandair Group. Spáð er mikilli minnkun einkaneyslu á Íslandi og auk þess er gert ráð fyrir verulegum samdrætti í heiminum í farþega- og vöruflutningum flugleiðis. Þær hagræðingaraðgerðir sem þegar hefur verið gripið til munu koma samstæðunni til góða og áfram verður leitað leiða til kostnaðarlækkana. Við sjáum ýmis tækifæri í því ástandi sem upp er komið og á það við um starfsemi allra félaga innan samstæðunnar. Við erum því sannfærð um að sveigjanleiki,fjölþætt starfsemi og ekki síst frábært starfsfólk mun gera félaginu kleift að skila viðunandi rekstrarárangri á árinu 2009,“ segir Björgólfur Jóhannsson í tilkynningunni.