Björgólfur Jóhannsson, nýráðinn forstjóri Icelandair Group, tekur formlega til starfa hjá félaginu 15. janúar nk., og hættir þá jafnframt störfum sem forstjóri Icelandic Group. Rekstur síðarnefnda félagsins hefur verið erfiður að undanförnu og unnið hefur verið í hagræðingaraðgerðum um alllangt skeið.

„Það er vissulega erfitt að yfirgefa fyrirtækið á þessum tímapunkti þar sem reksturinn hefur ekki staðið undir væntingum mínum og annarra. Sumt er hægt að hafa áhrif á, annað ekki, svo sem breytingar á hráefnisverði og breytingar á lánamörkuðum. Maður vill auðvitað yfirgefa skútuna þegar allt gengur vel, en það verður ekki á allt kosið. Ég á hins vegar góðar minningar frá þessu tímabili og kveð mitt samstarfsfólk með virktum,” segir hann.

Ekki er búið að ákveða eftirmann Björgólfs hjá Icelandic Group en kveðst hann gera ráð fyrir að stjórn félagsins taki um það ákvörðun innan skamms.