Tap Icelandair Group árið 2009 má fyrst og fremst rekja til vandamála vegna of mikillar skuldsetningar fyrirtækisins í góðærinu.

Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í uppgjörstilkynningu frá félaginu en eins og áður hefur komið fram nam tap félagsins á síðasta ári 10,7 milljörðum króna eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við tap upp á 7,5 milljarða árið áður.

„Það liggur fyrir að árið 2009 var afar erfitt í alþjóðlegum flugrekstri. Á árinu 2009 var hins vegar hagnaður bæði hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og bæði félög eru að skila sinni bestu afkomu í langan tíma. Jafnframt var hagnaður af starfsemi Loftleiða, Bluebird og Iceland Travel,“ segir Björgólfur í tilkynningunni.

„Hins vegar er mikið tap á árinu vegna ábyrgða sem Icelandair Group veitti SmartLynx árið 2007, vegna olíuvarna hjá Travel Service og síðast en ekki síst vegna mikillar skuldsetningar móðurfélagsins sem á rætur sínar að rekja til ársins 2006.“