„Það eru mikil viðbrigði að fara beint úr slorinu, að hafa alist upp í sjávarþorpi og verið á sjó, yfir í það að reka flugfélag,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, aðspurður um það hvernig það sé að starfa lengi í sjávarútvegi og fara síðan til starfa í ferðaiðnaði og flugrekstri en Björgólfur var ráðinn forstjóri Icelandair Group fyrir tveimur árum.

„En í mínum huga er rekstur bara rekstur. Að reka flugfélag eru engin geimvísindi, menn þurfa að passa að það komi meira í kassann en fer úr honum. Í útgerðinni þarf maður að passa ýmsa þætti, s.s. olíuverð, veiðarfæri, áhöfnina og viðhald auk þess að þarf að ná fiskinum um borð, fara með hann að landi og gera verðmæti úr honum.“

Þetta hljómar bara nokkuð eins og flugbransinn, skýtur blaðamaður inn í.

„Já, það má segja það að vissu leyti,“ segir Björgólfur og hlær.

„Það þarf að koma fólki í vélarnar og svo á áfangastað. Á sama tíma þarf að hugsa vel um rekstur vélanna og allt sem því fylgir. Í mínum huga er þessi rekstur þó allt öðruvísi. Munurinn er helst sá að sjávarútvegurinn hefur aðgang að sjálfbærri auðlind en það er ekki sjálfgefið að farþegarnir fljúgi með okkar félagi. Því fylgir mikil vinna að gera flugfélagið eftirsóknarvert enda er markaðsstarfsemi félagsins mikil.“

Í nýjasta tölublaði Viðskipablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Björgólf. Eftirfarandi kafli rataði þó ekki allur í prentútgáfu blaðsins og verður því birtur hér.

Ekki verður hjá því komist að spyrja Björgólf um helstu atriði varðandi þá umræðu sem nú er um fiskveiðistjórnunarkerfið.

„Ég held að það sé mjög alvarlegt hvernig þetta er að fara,“ segir Björgólfur aðspurður um hina svokölluðu fyrningarleið.

„Það er þó ýmislegt í sjávarútvegi sem hefur þó valdið ágreiningi. Ég kýs að kalla það skilningsleysi á sjávarútvegi og í einhverjum tilfellum vanþekkingu. Þetta frjálsa framsal hefur væntanlega gert útslagið. Menn sáu ofsjónum yfir þeim peningum sem fóru á milli aðila. Menn mega þó ekki gleyma því að sjávarútvegurinn hefur fjármagnað þetta að mestu leyti innan frá. En þetta er byrjunin og rótin að þessum vanda.“

Björgólfur segir að þegar kvótakerfið hafi verið sett á árið 1984 hafi verið hér ofveiði og nauðsynlegt hefði verið að minnka veiðar.

„Fyrir þann tíma gátu allir sem vildu verið með skip. Stóra fjárfestingin þá voru skipin, það breyttist síðar og verðmætin fóru úr skipum yfir í kvótann. Þá fóru peningar að skipta um hendur vegna kvótans en ekki skipanna, en það var ekki áður,“ segir Björgólfur.

Björgólfur segir að með árunum hafi störfum fækkað í sjávarútvegi en um leið hafi hann orðið mun hagkvæmari, sérstaklega í kjölfar þróunar og fjárfestinga í tæknibúnaðar um borð í skipunum.

„Nú vilja menn fara að færa þetta allt til baka. Þá þurfa menn að spyrja sig að því hvernig menn vilja hafa sjávarútveginn. Hann er í dag hagkvæmur, hann skilar arði og skilar langmest fyrir þjóðarbúið í því formi sem hann er núna. Það má vel vera að það sé í lagi að færa þetta aftur í fyrra horf en þá þurfa menn líka að taka afleiðingunum,“ segir Björgólfur

Sem eru hverjar?

„Þá ertu kominn með óhagkvæman rekstur og mikil ríkisafskipti sem fela það í sér að ríkið þarf að dæla fjármagni inn í sjávarútveginn eins og það gerði áður. Það voru búnar til lánalínur í gegnum Byggðastofnun, Bjargráðasjóð og hvað sem þetta hét allt saman,“ segir Björgólfur.

„Svo gleyma menn mjög mikilvægum þætti. Það er, hver ætlar að borða þennan fisk sem þú ætlar að veiða. Við erum í dag með viðskiptavini út í heimi sem vita það að Íslendingar geta útvegað fisk alla daga ársins í hvaða formi sem er. Þetta er gífurlega mikilvægur þáttur í uppbyggingu sjávarútvegs enda fáum við hærra verð en margir aðrir.“

Björgólfur segir þetta vera lykilinn að því hvers vegna sjávarútvegurinn gengur svona vel.

„Ef menn ætla að fara að umbylta þessu kerfi eru menn í raun að gefa viðskiptavininum langt nef,“ segir Björgólfur.

„ Menn hafa ekki hugsað út söluna á fiski erlendis enda ræðst umræðan að miklu leyti af vanþekkingu. Það er verið að tala og nota orð sem ákveðnir aðilar telja að fari vel í fólk svona heilt yfir. Menn finna að það er meðbyr með því að rústa kvótakerfinu en menn vita ekkert hvers vegna nema þá helst að einhverjir seldu eignarhluti sína í félögum og stærsta eignin var aðgangur að auðlindinni. Þessir aðilar sem vilja hvað mest brjóta niður kerfið vilja í raun bara einhverja aðra að borðinu. Þeir vilja henda núverandi rekstraraðilum út og telja að þeir geti komið að nýjum aðilum.“

_____________________________

Nánar er rætt við Björgólf í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir hann sig um stöðu félagsins eftir að það var selt út úr FL Group og hvernig farið var með það í höndum FL Group, framtíðarhorfur félagsins, endurskipulagninguna, sem nú er á lokastigi, og kjaradeilur við starfsmenn.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .