Björgólfur Thor Björgólfsson segir í viðtali við Viðskiptablaðið að mikilvægt sé í hverri fjárfestingu að þekkja sinn vitjunartíma. „Ég fjárfesti almennt þannig að ég annaðhvort stofna fyrirtæki eða kaupi það með það að markmiði að selja það á ákveðnum tímapunkti. Hver sá tímapunktur er fer eftir hverju og einu verkefni, en í einföldu máli vil ég selja þegar mínu verkefni er lokið.

Ég skrifa um það í bókinni að ég átti þess vegna erfitt með að skilja fjárfestingar Baugs og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, því mér virtist sem hann keypti bara og keypti, en hann seldi aldrei. Ég skil ekki svoleiðis fjárfestingar. En að sama skapi vil ég klára verkefnið áður en ég sel. Í einum viðskiptum sem ég átti í Búlgaríu með Deutsche Bank vildi bankinn fara út allt of snemma að mínu mati. Það er líka rangt, því þú átt að ljúka því sem þú byrjar á. Það á að vera hugsun á bak við fjárfestingarnar og ég vil sjá þá hugsun verða að veruleika. Það fer að koma að þessum tímapunkti hjá Play og NOVA, enda eru þetta að verða stöndug fyrirtæki. Ég ætla ekki að eiga þessi fyrirtæki að eilífu, því þá er maður að setja upp fjölskyldufyrirtæki. Það er ekki það sem ég geri.

Almennt er tímaramminn þegar ég kaupi fyrirtæki í kringum fjögur ár, en um átta ár þegar ég stofna fyrirtæki. Tímaramminn í Actavis er núna orðinn þrettán ár, en ég hef aldrei selt eitt bréf í Actavis, eins undarlega og það kann að hljóma. Það fer svo að líða að því að ég selji mig út úr Actavis, en það er ekki af því að ég hef ekki trú á fyrirtækinu, heldur bara af því að þannig starfa ég.“