Björgólfur Guðmundsson hefur keypt 5% eignarhlut Eggerts Magnússonar í West Ham United, auk þess sem hann hefur lagt 30 milljónir punda til reksturs félagsins til að bæta fjárhagsstöðu þess.

Í yfirlýsingu frá West Ham United segir að auk þessa sé að vænta ýmissa breytinga í rekstri félagsins. Þar á meðal standi til að byggja nýjan völl sem taki 60.000 manns í sæti. Breytingarnar voru samþykktar á fundi WH Holding, eignarhaldsfélags West Ham.

Í framhaldi af breytingunum hefur Björgólfur Guðmundsson tekið sæti formanns stjórnar West Ham en auk hans sitja þeir Ásgeir Friðgeirsson (varaformaður), Þór Kristjánsson, Mike Lee, Guðmundur Oddsson og  Nick Igoe í stjórn félagsins.

Í tilkynningu um breytingarnar er haft eftir Björgólfi Guðmundssyni að ætlunin sé að treysta undirstöðurnar í rekstri félagsins. “West Ham er gott félag með langa sögu og trausta fylgismenn. Mitt hlutverk sem eiganda er að hjálpa til við að skapa félaginu réttar aðstæður svo það geti vaxið og dafnað í framtíðinni. Að mínu mati höfum við þegar stigið fyrsta skrefið í þá átt með því að taka ákvörðun um að reisa nýjan leikvöll. ”

Þar er einnig haft eftir Eggerti Magnússyni að hann hafi notið vel alls þess tíma sem hann hefur starfað hjá West Ham. “Allt frá því ég og Björgólfur buðum í félagið hefur það verið mér mikill heiður að taka þátt í starfi West Ham.” Að lokum þakkaði Eggert svo samstarfsmönnum sínum og fylgjendum West Ham stuðninginn og sagði þá bestu stuðningsmenn sem hægt væri að hugsa sér.