Björgólfur Jóhansson, forstjóri Icelandair Group, var í dag kjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) með 99% greiddra atkvæða. Björgólfur var einn í framboði og tekur við af Vilmundi Jósefssyni.

Björgólfur hefur margháttaða reynslu úr atvinnulífi og félagsstarfi. Hann hefur verið forstjóri Icelandair Group frá ársbyrjun 2008 en starfaði áður einkum í sjávarútvegi. Hann var forstjóri Icelandic Group um tveggja ára skeið frá 2006, starfaði sem framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar frá 1999, formaður stjórnar LÍÚ á árunum 2003-2008, var framkvæmdastjóri nýsköpunar- og þróunarsviðs Samherja frá 1996 og fjármálastjóri Útgerðarfélags Akureyringa frá 1992-1996.

Björgólfur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1983 og starfaði að námi loknu sem endurskoðandi.