Björgólfur Thor Björgólfsson hefur ítrekað bréf sem sent var til RÚV ohf. í sumar þar sem hann kvartaði yfir umfjöllun fréttastofunnar, en hann telur hana hafa brotið lög um Ríkisútvarpið.

Í fyrra bréfi óskaði hann eftir afsökunarbeiðni frá RÚV vegna  um­fjöll­un­ar um hóp­mál­sókn gegn hon­um í Kast­ljós­inu þriðjudaginn 23. júní sl, en hann sakaði RÚV um  að hafa ástundað ófagleg vinnubrögð, ekki gætt sanngirni og látið hlutlægni lönd og leið.

Í nýja bréfinu segir hann að því fyrra hafi ekki verið svarað af stjórn RÚV ohf. þar sem hann óskar eftir svari við stjórum spurningum

  • Telur stjórn RÚV ohf. að vinnubrögð Kastljóss í þessu máli hafi verið góð og fagleg?
  • Telur stjórn RÚV ohf. að sanngirni og hlutlægni hafi verið gætt?
  • Telur stjórn RÚV ohf. að upplýsinga hafi verið leitað frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast?
  • Telur stjórn RÚV ohf. að fréttamenn þess megi stuðla að einhliða málflutningi, sem felur í sér ávirðingar um brot og láta þannig lönd og leið þá meginreglu réttarríkisins að maður teljist saklaus uns sekt hans er sönnuð fyrir þar til bærum dómstóli?

Björgólfur segist ekki hafa fengið svar við fyrra bréfi en vitnar í frétt Kjarnans um að bréfinu hafi verið vísað til yfirmanna Kastljóssins, en hann hafi ekki fengið svar frá þeim heldur. Björgólfur segir

„Mér þykja það aum vinnubrögð stjórnar að svara í engu bréfum sem til hennar er beint, ekki einu sinni til að upplýsa sendandann að hún hafi ákveðið að víkja sér undan málinu enn á ný. Stjórn RÚV ohf. ber ábyrgð á að farið sé að lögum í starfsemi Ríkisútvarpsins. Í lögum um RÚV ohf. eru engar undanþágur fyrir stjórn sem vill víkja sér undan óþægilegum málum. Stjórnin á líka, lögum samkvæmt, að gera aðalfundi grein fyrir því á ári hverju hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Mér þætti gaman að heyra rök stjórnarinnar fyrir því hvernig til hefur tekist í þessu máli.“

Björgólfur segist vona að bréfið verði tekið fyrir á stjórnarfundi sem verður í þessari viku.