Björgólfur Thor Björgólfsson lýsir sjálfum sér sem samningafíkli (deal junkie) í nýrri bók, sem kemur út á næstu dögum, sem hafi bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á hann. Hann hafi næmt auga fyrir tækifærum, en á síðustu árunum fyrir hrun hafi hann verið með of mörg járn í eldinum og of marga bolta á lofti.

Í bókinni kemur fram nokkuð sérstakt samband Björgólfs Thors við Ísland. Hann ákvað fljótlega eftir handtöku föður síns að hann ætlaði ekki að búa á Íslandi, heldur freista gæfunnar erlendis. Hann fór til Rússlands á tíunda áratugnum og var þar í áratug að byggja upp gosdrykkja- og bjórframleiðslu í félagi við föður sinn og Magnús Þorsteinsson. Þetta fyrirtæki seldu þeir loks árið 2002 og nam hagnaður Björgólfs Thors um 100 milljónum dala. Það ár var svo gengið frá kaupum þeirra þriggja á stórum hluta í Landsbankanum.

Íslenska kerfið tók pabba niður

Kaupin á Landsbankanum segir Björgólfur Thor hafa verið sín stærstu mistök. „Ég elska Íslendinga, enda eru þeir frábær þjóð og það er ekki til skemmtilegra fólk að verja tíma sínum með. Öðru máli gegnir um íslenska kerfið. Það var íslenska kerfið sem tók pabba niður og ég hef áhyggjur af því að Ísland sé að breytast aftur í það Ísland sem var á þeim tíma. En ég held að ég sé ekki eini Íslendingurinn sem elskar þjóðina og fólkið en hefur óbeit á kerfinu. Kerfið er ekki svona slæmt af því að stjórnmálamenn séu vondir eða að embættismenn séu spilltir. Þetta er afleiðing af því hvað við erum fá.“

Björgólfur segir að þegar framboð af hæfu fólki sé, eðli málsins samkvæmt, svona takmarkað sé erfitt að halda uppi flóknu kerfi innviða. „Árið 2002 hafði ég komið mér í þá draumaaðstöðu að ég bjó erlendis, hafði búið mér til peninga erlendis og sá fullt af tækifærum erlendis til að halda áfram. Eini staðurinn sem ég vildi helst ekki starfa á var Ísland, enda var reynsla mín þar ekki góð. Í því ljósi var rangt af mér að fara aftur inn í Ísland. Með því er ég ekki að segja að það hefðu verið mistök fyrir einhvern annan að kaupa Landsbankann. Þetta voru mistök hjá mér persónulega.“

Ítarlegt viðtal við Björgólf Thor má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .