Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir félagið hafa skoðað mögulega áfangastaði í Kína, Japan og Ísrael fyrir flugvélar félagsins.

„Það er í skoðun hjá okkur að fljúga til Asíu og ef við horfum fram í tímann hef ég trú á því að við eigum eftir að sjá félagið færa sig í þá áttina,“ segir Björgólfur í samtali við Fréttablaðið . Sagði hann þó að nú þegar kæmu margir Asíubúar til landsins frá Evrópu með vélum félagsins í gegnum samstarf þess við flugfélög frá álfunni.

„Snúna málið í þessu er vissulega það að heimamarkaðurinn er mjög lítill. Við erum bara 330 þúsund hér á landi,“ segir BJörgólfur.
„En við sjáum vissulega tækifæri í því að hefja Asíuflug og höfum verið að skoða það í allnokkur ár. Ég hef trú á því að við eigum eftir að sjá breytingar í þá veru á næstu misserum og árum.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Wow air einnig haft þreifingar í þessa átt, og er þegar staðfest að félagið mun hefja flug til Ísrael í haust. Einnig hefur Indland borið á góma í umræðunni.