Björgólfur Guðmundsson og Jón Ásgeir Jóhannesson eru langvaldamestu menn í íslensku viðskiptalífi samkvæmt nýrri skoðanakönnun meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið og birt er í blaðinu sem út kom í morgun. Tæp 70% aðspurðra telja að annar hvor þeirra sé valdamestur í viðskiptalífinu. Næstir koma þeir Sigurður Einarsson með 10% og Björgólfur Thor Björgólfsson með 9,4%.

Þótt þessir fjórir séu langefstir vekur athygli að tveir stjórnmálamenn komast ofarlega á blað, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Sjálfsagt á stríðið um fjölmiðlalög í vor hvað stærstan þátt í að þeir Davíð og Halldór eru ofarlega í huga stjórnenda fyrirtækja sem valdamiklir menn í viðskiptalífinu, en sem fyrr segir kemur á óvart að þeir skuli nefndir sem sá einstaklingur sem hefur mest völd á þessu sviði þjóðlífsins.

Þátttakendur voru einnig beðnir um að nefna einhverja þrjá einstaklinga til viðbótar við þann sem þeir töldu valdamestan. Svörin við þeirri spurningu voru síðan lögð saman við fyrstu spurninguna þannig að út kemur mæling á því hverja menn telja fjóra valdamestu menn í viðskiptalífinu. Þetta er að sumu leyti skynsamlegri nálgun. Hér dettur Halldór niður í 10. sæti með 4,2%, rétt niður fyrir Þorstein Má Baldvinsson, en Davíð heldur sínu þokkalega og er sjöundi; ríflega 10% nefna hann sem einn af fjórum valdamestu mönnum í viðskiptalífinu. Aðrir stjórnmálamenn sem komast á blað sem einn af fjórum valdamestu eru Geir Haarde, Ólafur Ragnar Grímsson og Valgerður Sverrisdóttir.