Björgólfur Jóhannsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandic Group frá 1. janúar 2006. Björgólfur mun sitja í fjögurra manna framkvæmdastjórn Icelandic Group sem heyrir undir stjórn félagsins. Í fréttatilkynningu félagsins kemur fram að eitt af verkefnum Björgólfs verður að stýra samskiptum við framleiðendur á Íslandi.

Björgólfur hefur verið forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað frá upphafi árs 1999. Hann var framkvæmdastjóri Nýsköpunar- og þróunarsviðs Samherja hf. á árunum 1996-1999 og fjármálastjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa hf. á árunum 1992-1996. Björgólfur er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi og starfaði á árunum 1980-1992 hjá Endurskoðun Sig. Stefánsson hf. Hann hefur setið í stjórn Landssambands Íslenskra Útvegsmanna frá árinu 2001 og verið formaður þess frá árinu 2003. Auk þessa hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja.

"Það er ómetanlegur fengur fyrir okkur hjá Icelandic Group að hafa fengið Björgólf til liðs við okkur. Hann hefur mikla reynslu í íslenskum og alþjóðlegum sjávarútvegi sem mun koma sér vel í áframhaldandi uppbyggingu félagsins," segir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Icelandic Group í tilkynningu félagsins.