Björgólfur Thor Björgólfsson stjórnarmaður í Actavis og aðaleigandi Actavis er að skoða möguleikann á því að selja fyrirtækið til bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson. DV greinir frá þessu í dag en vitnar til þess að Björgólfur hafi neitað að svara spurningum um málið við í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag á síðustu viku. Málið þar snýst um meinta skuld upp á 1,2 milljarða króna sem BeeTeeBEE Ltd, félag Björgólfs, telur sig eiga inni hjá Róberti Wessman, fyrrverandi forstjóra Actavis.

DV segir viðræður á milli Actavis og Watson komnar svo langt að hafin sé áreiðanleikakönnun á rekstri Actavis þar sem Watson fái aðgang að gögnum um starfsemi félagsins. Ef af verði gæti verið gengið frá kaupunum innan nokkura mánaða, að sögn DV.

Einn af æðstu stjórnendum Watson er Sigurður Óli Ólafsson, sem tók við forstjórastólnum af Róberti Wessman í ágúst 2008. Hann hætti hjá Actavis í júní fyrir tveimur árum. Hann tók við sem aðstoðarforstjóri Watson í ágúst 2010.

Helsti kröfuhafi Actavis er þýski bankinn Deutsche Bank sem lánaði félagi Björgólfs fyrir meirihluta kaupverðs í yfirtöku á Actavis síðla sumars 2007. Í skuldauppgjöri sem hann gerði við lánardrottna sína, Deutsche Bank, Landsbankann og fleiri lánardrottna, felst að verði Actavis selt fyrir meira en fimm milljarða evra, rúma 830 milljarða króna, þá fái hann og lykilstarfsmenn Actavis 30% hlutdeild í hagnaðinum. Af þessum 30% fær Björgólfur sjálfur 80% hlut, samkvæmt DV. Það þýðir samkvæmt dæmi DV að verði Actavis selt fyrir sjö milljarða evra þá fæ Björgólfur 480 milljónir evra, jafnvirði 80 milljarða króna.