Íslenskir kröfuhafar Björgólfs Thor Björgólfssonar felldu niður allar persónulegar ábyrgðir á hendur honum. Hjá Landsbankanum námu þær ábyrgðir um 27 milljörðum króna. Niðurfelling persónulegra ábyrgða var hluti samkomulags á milli Björgólfs og kröfuhafa um allsherjaruppgjör hans.

Fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá í gær.

Í fréttinni segir að íslensku bönkunum hafi verið stillt upp við vegg af Deutsche Bank, sem leiddi uppgjörið og er jafnframt stærsti kröfuhafi Actavis.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í lok júlí síðastliðnum sagði Björgólfur aðpurður að hann nyti engra sérréttinda í uppgjöri við kröfuhafa.

Björgólfur var spurður eftirfarandi spurningar: Sumir hafa haldið því fram að þú njótir einhverra sérréttinda við skuldauppgjör þitt, hverju svarar þú því?

„Ég nýt engra sérréttinda, ég legg allar eignir á borðið og borga allar skuldir,“ segir Björgólfur Thor.

„Bankarnir eru með samningum við mig að komast í miklu betri aðstöðu en þeir hefðu gert ella. Ég er vissulega að fá tíma, en það er enginn afsláttur gefinn og það eru engin sérréttindi fólgin í þessu. Ég átti gríðarlegar eignir, miklu meiri eignir en aðrir hér heima. Ég var með mjög stórt eiginfjárhlutfall þegar ég skoðaði mitt eigið uppgjör áður en þetta ferli hófst. Það kemur því ekki á óvart að ég skuli eiga fyrir skuldum, hins vegar má lítið út af bregða.“

Í yfirlýsingu til fjölmiðla um uppgjör Björgólfs í júlí, og Stöð 2 vitnar í, segir: „Samkvæmt samkomulaginu munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja til grundvallar uppgjörinu, en á þeim var gerð ítarleg úttekt og mat af hálfu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu þeirra, munu hins vegar ganga til uppgjörs skuldanna."