Björgólfur Thor Björgólfsson segir í nýjum pistli að „Störfum hlaðið dómskerfi Íslands þarf nú að bæta á sig duttlungum Vilhjálms Bjarnasonar.“ Björgólfur er þarna að vitna til hópmálsóknar fyrrum hluthafa í Landsbankanum á hendur honum en Vilhjálmur tekur þátt í málshöfðuninni.

Björgólfur segir að mál sín hafi þegar verið rannsökuð og að bankinn sé skaðlaus í viðskiptum við sig.

„Málefni mín og bankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og ekki talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra.  Þar að auki hef ég gert upp allar mínar skuldir við bankann og hann því skaðlaus af viðskiptum við mig.  Slitastjórn bankans hefur staðfest að hann eigi engar kröfur á mig. Misfærslum í skýrslu rannsóknarnefndar hef ég svarað ítarlega enda hef ég ekkert saknæmt unnið.“

Björgólfur segir einnig að „Þráhyggja Vilhjálms Bjarnasonar á sér hins vegar lítil takmörk. Með hana að vopni sér hann rangfærslur og svik þar sem sérfróðir rannsakendur sjá ekkert aðfinnsluvert. Það er illt að dómskerfið þurfi að eyða tíma sínum í slíkan málatilbúnað.“