

Hinn árlegi milljarðamæringa listi Forbes tímaritsins inniheldur 2.755 milljarðamæringa, 660 fleiri en í fyrra, og hafa þeir aldrei verið fleiri. Sumum gæti þótt það athyglisvert í ljósi þess að á því tímabili sem listinn nær yfir (apríl 2020-mars 2021) tröllreið heimsfaraldur lífi fólks, en líkt og þekkt er hafa til að mynda hlutabréfamarkaðir farið með himinskautum eftir að hafa tekið dýfu á fyrstu vikum faraldursins er óvissan var hvað mest.
Af þessum 660 nýju meðlimum listans eru 493 í fyrsta sinn á listanum og 86% þeirra sem rata á listann eru ríkari en fyrir ári síðan.
Fjórða árið í röð situr Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, á toppi listans. Eru auðæfi hans metin á hvorki meira né minna en 177 milljarða dala. Teslu forstjórinn skrautlegi, Elon Musk, er svo í öðru sæti en auðæfi hans eru metin á 151 milljarð dala.
Samanlögð auðæfi milljarðamæringanna 2.755 nemur um 13 þúsund milljörðum dala, en í fyrra námu samanlögð auðæfi 8 þúsund milljörðum dala.
Líkt og undanfarin ár er Íslendingurinn Björgólfur Thor Björgólfsson á milljarðamæringalistanum en hann metinn er á 2,2 milljarða dala og situr í sæti númer 1.444. Í fyrra sat hann í sæti númer 1.063 en þá voru eignir hans metnar á um 2 milljarða dala.
Davíð Helgason, einn stofnenda Unity, er á meðal nýliða á listanum. Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um hafa auðæfi hans vaxið verulega í kjölfar skráningar Unity á hlutabréfamarkað. Metur Forbes verðmæti eigna hans á 1 milljarð dala og situr hann í 2.674. sæti listans.
Tíu ríkustu auðjöfrar heims samkvæmt 2021 Forbes listanum eru eftirfarandi: