Fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson spáir því að apríl hafi gefið fölsk fyrirheit um þróun markaða og reiknar hann með að markaðir muni lækka á næstu mánuðum eftir að útgöngubönnum verður aflétt.

Björgólfur deilir þessari sannfæringu sinni í tísti og birtir, máli sínu til stuðnings, söguleg gögn á myndrænu formi sem sýna þróun Dow Jones vísitölunnar í síðustu fjórum kreppum - árin 1929, 2000, 2008 og þeirri sem nú stendur yfir. Segir Björgólfur að sögulegu gögnin yfir þróun vísitölunnar í síðustu kreppum bendi til þess að eiga megi von á frekari lækkunum í þeirri kreppu sem nú ríður yfir, áður en ástandið horfi til betri vegar.