„Við höfum áður sagt að olíuverð hefur áhrif á okkar rekstur. Skilyrðin hljóta að vera orðin betri,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið . Segir hann það gefa auga leið að mikil lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu muni hafa áhrif á rekstur flugfélagsins.

Verð á tonni af þotueldsneyti hefur lækkað úr 1.002 bandaríkjadollurum þann 20. júní síðastliðinn niður í 778 dollara síðastliðinn föstudag. „Flugrekstur rekur, eins og annar rekstur, auðvitað mið af verðlagi aðfanga, þar með talið verð á olíu, er að hreyfast frá einum tíma til annars. Það hefur verið almenna reglan að kostnaðarbreytingar, hvaða nafni sem þær nefnast, hafa áhrif á verðlagið,“ segir Björgólfur.