Björgólfur Guðmundsson hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna ásakana um að hann hafi beitt sér fyrir því að stöðva prentun DV snemma í nóvember.

Tilkynningin er svohljóðandi:

„Í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi var fjallað um ástæður þess að DV birti ekki snemma í nóvember frétt um að Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefði stofnað ráðgjafafyrirtæki og leigði húsnæði í eigu Nýja Landsbankans.

Spiluð var upptaka af samtali ritstjóra DV, Reynis Traustasonar, og blaðamanns, Jóns Bjarka Magnússonar, þar sem nafn mitt bar á góma.

Af því samtali má draga þá ályktun að ég hafi haft afskipti af og komið í veg fyrir birtingu blaðsins á þessari frétt. Þetta er fjarstæða. Ég vissi ekkert um þessa frétt, - ég hafði engra hagsmuna að gæta þar sem samstarfi okkar Sigurjóns Árnasonar lauk við yfirtöku ríkisins á Landsbankanum mánuði áður og þar fyrir utan var ég ekki í neinni aðstöðu til að hafa áhrif skrif blaðsins.

Ætli ritstjóri DV að halda því til streitu að ég hafi reynt að hafa áhrif á skrif blaðsins um ráðgjafastörf Sigurjóns Árnasonar verður hann að sanna mál sitt.

Annars vekur það athygli mína en kemur í raun ekki á óvart að ritstjórinn, Reynir Traustason, segir í þessu samtali að ég sé „djöfull“ og að „við munum taka hann niður“.

Þá er ekki annað að skilja en þetta hafi verið stefna blaðsins um all nokkurt skeið því ritstjórinn segir jafnframt: „En við höfum pönkast á honum (sic: Björgólfi Guðmundssyni) í hið óendanlega.“

Ritstjórinn hlýtur við fyrsta tækifæri að skýra þessa ritstjórnarstefnu blaðsins fyrir lesendum sínum og þá upplýsa jafnframt hvort það séu fleiri djöflar sem þurfi að taka niður og blaðið pönkist á.“