Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, segir brýnt að finna farsæla lausn á vinnumarkaði en staðan sé alvarleg og stefnir í átök að óbreyttu. Hann segir Samtök atvinnulífsins aldrei hafa staðið frammi fyrir jafn háum launakröfum og nú. Þetta kemur fram á vef samtakanna. „Fyrir þriggja ára samning krefst SGS 50-70% launahækkana fyrir alla félagsmenn sína og að hæstu laun hækki hlutfallslega mest. Önnur verkalýðsfélög krefjast 20-45% launahækkana fyrir aðeins árssamning,“ sagði Björgólfur á fundi samtakanna á Akureyri á föstudagsmorgun. Á fundinum komu saman stjórnendur stórra og smárra fyrirtækja úr fjölbreyttum atvinnugreinum og lýstu yfir áhyggjum yfir háum kröfum.

Á fundinum koma fram að lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni sem fjárfest hafa mikið á undanförnum árum muni sligast undan svo miklum hækkunum. Áhrifin yrðu slæm fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem hefur ekki notið fjölgunar ferðamanna líkt og á höfuðborgarsvæðinu.