Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur hríðfallið í morgun eftir að félagið gaf út afkomuspá þar sem að gert er ráð fyrir að EBITDA félagsins á þessu ári verði talsvert verri en fyrir árið í fyrra. Í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar gerir félagið ráð fyrir að EBITDA ársins 2017 verði á bilinu 140 til 150 milljónir dollara, samanborið við 210 til 220 milljónir dollara í fyrra.

Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þó að þessi tala sem að gefin sé út þarna sé talsverð breyting, sé það ekki alveg dauði fyrir félagið. Hann leggur áherslu á að langtímahorfur hjá Icelandair séu metnar góðar.

Ekkert óeðlilegt að markaðurinn sveiflist

Gengi bréfa Icelandair Group hefur lækkað talsvert í morgun og hefur breytingin dregið Úrvalsvísitölu Kauphallar Nasdsaq Iceland talsvert niður. Spurður að því hvort að markaðurinn sé að bregðast of harkalega við tilkynningunni, segir Björgólfur að það sé ekkert óeðlilegt að markaðurinn bregðist við svona fréttum. „Stóra málið í hlutabréfaviðskiptum eru horfur til lengri tíma og við metum þær góðar. Svo sveiflast markaðurinn, fram og til baka , “ tekur hann fram.

„Ég vil leggja áherslu á horfur til lengri tíma sem við teljum góðar og það er það sem við vinnum að hörðum höndum,“ bætir Björgólfur við.

„Ákveðnar hræringar“

Björgólfur tekur fram að afkomuspáin fyrir árið 2017 sé töluvert undir því sem markaðurinn hefur sett út sem væntingar. Spurður nánar út í breytingarnar á afkomuspánni segir Björgólfur: „Það eru ákveðnar hræringar sem við höfum séð. Aukin samkeppni á Atlantshafinu og við höfum séð bókunarflæðið breytast til verri vegar á undanförnum dögum og erum að bregðast við því.“

Björgólfur segir að það sé mjög margt sem Icelandair geti gert til að vinna að betri afkomu.