Athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur auðgast um rúmlega 1,1 milljarð punda á einu ári, eða um 152 milljarða íslenskra króna, samkvæmt útreikningum breska helgarblaðsins The Sunday Times.

Björgólfur Thor er nú í 32. sæti yfir ríkustu menn Bretlands, með heildareignir að virði 1,55 milljarðar punda, og hefur hann hækkað úr 125. sæti frá því í fyrra. Þá sagði Sunday Times eignir Björgólfs Thors um 400 milljón punda virði.

Bakkabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hækka í 103. sæti á listanum úr 458. sæti og hafa eignir þeirra aukist í 598 milljónir punda úr 100 milljónum punda, samkvæmt útreikningum Sunday Times.

Ekki er minnst á Jón Ásgeir Jóhannesson, en í fyrra var hann í 751. sæti og voru eignir hans metnar á 65 milljónir punda. Ekki er vitað hvort að Jón Ásgeir teljist búsettur á Bretlandseyjum, en listinn inniheldur ríkasta fólkið sem er búsett í Bretlandi og á Írlandi, og gæti það útskýrt ástæðuna fyrir því að hann er ekki á listanum.

The Sunday Times telur foreldra Dorrit Moussaieff eiga eignir að virði 120 milljónir punda og minnst er á að dóttir þeirra hafi gifst forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, árið 2003.