„Ég get sjálfur haldið því fram að ég hafi á hverjum tíma tekið ákvarðanir sem ég taldi skynsamlegar og réttar og ég tel víst að ég hafi engin lög brotið.“

Þetta segir Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann biðst afsökunar á sínum þætti í viðskiptalífinu síðustu ár.

Björgólfur segist í þröngum skilningi vera með allt sitt „á þurru“ eins og hann orðar það í bréfinu. En þegar hann líti í kringum sig sjái afleiðingar hrunsins geti hann ekki varist sjálfsásökun. Hann segir sjálfur að hann hefði átt að hafa skarpari dómgreind og einbeittari vilja til að axla ábyrgð á hvert stefndi í íslensku viðskiptalífi.

„Ég [...] bið alla Íslendinga afsökunar á mínum þætti í eigna- og skuldabólunni sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins,“ segir Björgólfur Thor í upphafi greinarinnar.

„Ég bið ykkur afsökunar á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki auðnast að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna. Ég bið ykkur afsökunar.“

Sjá grein Björgólfs Thor í fullri lengd.