Björgólfur Thor Björgólfsson segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann sé mjög sáttur við niðurstöðuna í sölunni á lyfjasamsteypunni Actavis. „Ég er mjög sáttur við niðurstöðuna. Og ég er rosalega sáttur við Actavis, stjórnendur þar og ásigkomulag þess í dag," segir Björgólfur Thor.

Bandaríska lyfjafyrirtækið Watson - nú Actavis - hefur gengið frá lokagreiðslu vegna kaupanna á Actavis fyrir ári. Árangurstengd greiðsla vegna kaupanna verður greidd að fullu, alls 5,5 milljónir bréfa í hinu sameinaða félagi eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag. Virði hluta Novator er um 60 milljarðar króna.

Aðspurður segir Björgólfur að hann stefni ekki á að selja hlutina að svo komnu máli.

„Ég hef mikla trú á þessu þannig að ég ætla að eiga hann áfram. Ég er ekkert að flýta mér að selja hann. Ég held að ég sé allavega að horfa á tvö ár í þessu samhengi,“ segir Björgólfur Thor en að hans mati tekur yfirleitt um þrjú ár fyrir samlegðaráhrif fyrirtækja að koma fram. Eitt ár er síðan Watson tók Actavis yfir.