Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður, opnaði í dag vefsíðu þar sem hann fer ítarlega yfir öll sín viðskipti á Íslandi á árunum 2002-2009.

Björgólfur Thor segir að frá falli íslensku bankanna haustið 2008 hafi almenningi verið boðið upp á afar misvísandi fréttir af íslensku viðskiptalífi á árunum fyrir hrun og oft hafi verið þrautin þyngri að greina sannleikann frá hálfsannleika og hreinum uppspuna.

„Viðskipti mín og ýmis mál sem tengjast mér hafa verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum á Íslandi undanfarin misseri og hefur mér oft fundist að hending ráði hvort það sem fram hefur komið hafi verið rétt eða rangt, - satt eða logið, - allur sannleikur eða bara hálfur eða bara svolítill misskilningur,“ segir Björgólfur Thor á vef sínum.

„Hér langar mig að bjóða gestum vefsins að glugga í skjöl og gögn sem fyrir liggja um viðskipti mín á þessum árum. Ég treysti fólki til að draga sínar eigin ályktanir af þessum upplýsingum.“

Þá segir Björgólfur Thor að á árunum eftir 2002 hafi markaðsverðmæti eigna hans á Íslandi aukist hratt. Ólíkt fjárfestingum hans á meginlandi Evrópu hafi hann aldrei innleyst hagnað af viðskiptum í Kauphöll Íslands.

„Ég seldi nánast aldrei hlutabréf í þeim skráðu félögum sem ég átti í og því tapaði ég um 70 milljörðum króna við fall íslenska fjármálakerfisins veturinn 2008 – 2009 ef miða á við skráð markaðsgengi í byrjun október 2008,“ segir Björgólfur Thor.

„Í kjölfarið hafa síðan fallið á mig skuldir og ábyrgðir sem nema um og yfir 30 milljörðum króna og því nemur persónulegt tjón mitt vegna hruns bankakerfisins nærri 100 milljörðum króna. Ég hef einsett mér að nýta sem best reynsluna frá þessum tíma og læra af þeim mistökum sem ég gerði. Til þess að geta það verð ég að horfast í augu við staðreyndir. Draga verður lærdóma af því sem menn gerðu og gerðu ekki til þess bæta það sem fór úrskeiðis og efla það sem fyrir er. Til þess þurfa staðreyndir að líta dagsins ljós. Ég skulda Íslendingum að staðreyndir um viðskipti mín liggi fyrir.“

Vefur Björgólfur Thors