Björgólfur Thor Björgólfsson, stærsti hluthafinn í finnska símafyrirtækinu Elisa, segist ekki vera á leiðinni að selja hlut sinn í félaginu.

,,Við erum ekki á leiðinni að selja hlut okkar í félaginu. Við erum mjög ánægðir með fyrirtækið,? sagði Björgólfur Thor í viðtali við finnska dagblaðið Helsingin Sanomat á miðvikudaginn síðastliðinn.

Þetta var haft eftir Björgólfi eftir vangaveltur á markaði um að félag Björgólfs Thors, Novator, hefði í hyggju að selja hlut sinn í Elisa, en hlutabréf Elisa hafa hækkað í vikunni.

Bréfin í Elisa hækkuðu um 1,7% en félagið er metið á 330 milljarða íslenskra króna. Hlutur Novators í félaginu er 10,3% og er félagið stærsti hluthafinn.

Novator eignaðist hlut sinn í Elisa þegar símafélagið Saunalahti, sem er í eigu Novators, sameinaðist Elisa árið 2005. Þá var hið sameinaða félag metið á 165 milljarða íslenskra króna og því er ljóst að verðmæti þess hefur tvöfaldast frá þeim tíma.