Íslenski auðkýfingurinn Björgólfur Thor Björgólfsson er enn orðaður við kaup í breska fjarskiptafyrirtækinu Cable & Wireless (C&W).

Velta með bréf í félaginu fimmfaldaðist á mánudaginn og gengi bréfanna hækkaði um rúmlega 64 pens á hlut í gær og var lokagengið 1123,4 pens á hlut.

Haft hefur verið eftir stjórnarformanni félagsins, Richard Lapthorn, að fjárfestingasjóðir hafi áhuga að kaupa í félaginu þar sem gengið hefur hríðfallið í kjölfar slakrar afkomu og afkomuviðvarana. Sérfræðingar á fjármálamarkaði í Bretlandi hafa hins vegar gagnrýnt Lapthorn og segja hann reyna að ?tala upp" gengi félagsins.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, fjárfesti í C&W nýlega en losaði stöðuna áður en síðasta afkomuviðvörun var gefin út, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Talið er að Novator hafi keypt aftur í félaginu eftir afkomuviðvörunina en hlutur félagins er enn undir 3% og því ekki tilkynningaskyldur.

Orðrómur er nú á kreiki að Novator hafi aukið hlut sinn í félaginu, en það hefur ekki fengist staðfest. Margir fjármálasérfræðingar í Bretlandi telja líklegt að Lapthorn standi á bak við orðróminn.