Björgólfur Thor Björgólfsson er í 1.215 sæti yfir ríkustu menn heims samkvæmt nýjum lista Forbes fyrir árið 2018. Fellur hann niður um 54 sæti frá því í fyrra, þegar hann var í 1.161 sæti, en listi Forbes tímaritsins í ár er sá stærsti til þessa.

Að þessu sinni nær listinn til um 2.208 milljarðamæringa frá 72 löndum og eru heildareignir þeirra um 9.100 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 908.635 milljörðum íslenskra króna.

Á listanum að þessu sinni eru í fyrsta sinn milljarðamæringar frá Ungverjalandi og Zimbabwe, en flestir milljarðamæringanna koma frá Bandaríkjunum, eða 585, meðan kínverska alþýðulýðveldið er með næstflesta eða 373.
Eini milljarðamæringur Íslands í Bandaríkjadölum

Björgólfur Thor er talinn eini milljarðamæringur Íslands, en heildareignir hans eru metnar á 2,1 milljarð dala, eða sem samsvarar tæplega 210 milljörðum íslenskra króna. Fyrir ári voru eignir hans metnar á 1,8 milljarða dala.

Í umfjöllun Forbes er nefnt að hann eigi stóra eignarhluta í pólska símafyrirtækinu Play sem fór í hlutabréfaútboð á síðasta ári og síleska símafyrirtækinu WOM. Einnig er nefnt að hann eigi þónokkrar fjárfestingar í rafmynntum auk frumkvöðlafyrirtækja eins og Zwift, BeamUp og Deliveroo.

Saga Björgólfs rakin, eignatap og endurris

Jafnframt er farið yfir sögu hans, og upphaf auðæfa hans þegar hann var annar stofnanda Bravo ölverksmiðjunnar í Rússlandi en hann ber ábyrgð á hinu vinsæla Botchkarov vörumerki þar í landi.

Hann hafi síðan selt verksmiðjuna árið 2002 til Heineken, en eftir að hafa fjárfest bæði hér heima á Íslandi og víðar í Austur Evrópu hafi hann nánast tapað öllum sínum auðæfum í fjármálahruninu.

Síðan hafi hann klifið upp listann á ný eftir að hafa skuldað meira en 1 milljarð dala. Einnig er þar tekið fram að hann er 50 ára gamall, býr í Lundúnaborg, giftur og eigi 3 börn, og hann sé með bachelor gráðu frá New York háskóla.
Jeff Bezos tók stærsta stökkið í sögu listans

Í fyrsta sinn er Jeff Bezos stofnandi Amazon efstur á lista Forbes, en hann fór nú upp fyrir Bill Gates, stofnanda Microsoft. Hafi verðmæti Bezos aukist um 39 milljarða dala á einu ári, sem er stærsta stökk í sögunni.

Á listanum í þetta sinn eru 259 nýir aðilar, þar á meðal fyrstu milljarðamæringarnir með verðmæti sín í rafmynntum, en á sama tíma hrundu 121 af listanum, þar á meðal allir 10 Sádi Arabarnir á listanum í fyrra.

Neðstur á listanum er svo Olgun Zorlu frá Tyrklandi með 1 milljarð bandaríkjadala, eða sem samsvarar 99,85 milljörðum íslenskra króna eins og gengið stendur þegar þetta er skrifað.

Efstu 10 á listanum eru:

  1. Jeff Bezos
  2. Bill Gates
  3. Warren Buffet
  4. Bernand Arnault & family
  5. Mark Zuckerberg
  6. Amancio Ortega
  7. Carlos Slim Helu & family
  8. Charles Koch
  9. David Koch
  10. Larry Ellison