Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið valinn fjárfestir ársins í Búlgaríu af búlgarska ríkisútvarpinu, segir í tilkynningu.

Björgólfur Thor var einn þriggja sem tilnefndir voru sem fjárfestar ársins. Hinir voru Telecom Austria, sem hefur komið sér fyrir á farsímamarkaði í Búlgaríu, og Global Steel Holding, sem er í eigu hins indverska Lakshmi Mittal. Mittal er einn auðugasti maður veraldar.

Fjárfestingafyrirtæki Björgólfs Thors, Novator Telecom Bulagaria, samdi nýverið um kauprétt á öllum hlutum í eignarhaldsfélaginu Viva Ventures, sem á um 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu BTC, og nema viðskiptin um 100 milljörðum króna.

Fyrr á árinu keypti Novator 34% hlut í EIBank en hann er áttundi stærsti bankinn í Búlgaríu með heildareignir upp á nærri 50 milljarða íslenskra króna. Allt frá árinu 1999 þegar Björgólfur Thor leiddi kaup Pharmaco á búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma hefur hann verið virkur þátttakandi í búlgörsku atvinnulífi, segir í tilkynningunni.