Breska farsímafyrirtækið O2, sem er í eigu spænska símafyrirtækisins Telefonica, hefur samþykkt að kaupa breska breiðbandsfyrirtækið Be Broadband fyrir 50 milljónir punda, eða 6,9 milljarða íslenskra króna.  O2 greindi frá kaupunum fyrr í vikunni.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins átti Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, um 30% hlut í Be Broadband og fær hann því um 15 milljónir punda, eða rúmlega tvo milljarða, fyrir eignarhlut sinn í fyrirtækinu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í fyrra að Novator hefði tekið þátt í 24,5 milljóna punda lokuðu hlutafjárútboði í Be Broadband og talið er að Novator hafi þannig orðið stærsti hluthafinn í fyrirtækinu.

Be Broadband, sem var stofnað af Serbanum Boris Ivanovic og Dana Pressman, er lítið fyrirtæki með um níu þúsund áskrifendur að þjónustu sinni. Hins vegar er það markmið fyrirtækisins að verða eitt stærsta breiðbandsfyrirtæki Bretlands. "Við keyptum fyrirtækið vegna sterkra innviða og grunngerðar en ekki vegna fjölda notenda," sagði talsmaður O2 í tilkynningu.

Sérfræðingar hafa lengi velt vöngum yfir því hver fjáfestingastefna Björgólfs Thors sé, sérstaklega þegar kemur að fjárfestingum í símafyrirtækjum. Novator hefur fjárfest í síma- og fjarskiptafyrirtækjum í Búlgaríu, Grikklandi, Finnlandi, Tékklandi og Bretlandi en fyrirtækið hefur ekki tekið þau alfarið yfir.

Björgólfur hefur þó tryggt sé kaupréttinn að 65% eignarhlut í búlgarska símafyrirtækinu BTC, en fjárfestingasjóðurinn Advent er skuldbundinn búlgörskum stjórnvöldum að eiga hlutinn óskiptan þangað til á næsta ári.

Sumir sérfræðingar benda á að Novator bíði eftir því að stóru símafyrirtækin hrindi af stað aukinni samþjöppun í geiranum og þar með geti fyrirtækið losað eignarhluti sína á góðu verði með góðri ávöxtun.