Í bréfi sínu til hluthafa finnska fjarskiptafélagsins Elisa gagnrýnir Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Novator, stjórn félagsins harðlega. Þar kemur fram að þrátt fyrir ítrekaðar óskir um breytingar á stefnu félagsins hafi óskir Novators verið hundsaðar og því sjái þeir sér ekki annað fært en að snúa sér beint til hluthafa og óska eftir hluthafafundi.

Í bréfinu kemur fram að stjórnendur Novators hafa óskað eftir því að Elisa verði skipt upp og myndað verði sérstakt eignarhaldsfélag og annað félag verði sett utan um starfsemi félagsins. Eignarhaldsfélagið muni hafa það hlutverk að sjá um vöxt þess á erlendum vettvangi um leið og það skerpi á áherslu og stefnu Elisa. Rekstrarfélagið muni einbeita sér að daglegum rekstri og samskiptum við viðskiptavini.

Í bréfinu kemur fram að Novator hefur umtalsverða reynslu af slíkum umbreytingum í gegnum fjarskiptafélög sín í Póllandi, Tékklandi og Búlgaríu. Þar hafi slíkar breytingar leitt til umtalsverðs ávinnings fyrir hluthafa með skarpari áherslum, skýrari stjórnun og bættri þjónustu.

"Í kjölfar kaupa  Elisa á fyrirtæki okkar Saunalahti árið 2005 höfum verið stór hluthafi í Elisa í að verða þrjú ár. Við erum sannfærðir um að félagið er sterkt og samkeppnishæft og hefur alla burði til að vaxa á alþjóðlegum mörkuðum. Því miður höfum við ekki séð þá viðskiptaþróun hjá Elisa sem við teljum að félagið sé fært um. Sé tekið mið af þróun bréfa félagsins hefur hlutabréfamarkaðurinn ekki gert það heldur," segir Björgólfur Thor í bréfi sínu til hluthafa og bætir við:

"Við höfum rætt þessi mál við núverandi stjórn við mismunandi tækifæri, bæði skriflega og á fundum, en án árangurs. Við fengum nýlega formlega neitun frá stjórn félagsins þar sem tillögum okkar um að skýra stefnu félagsins. Sem leiðandi hluthafi teljum við það vera okkar skyldu að starfa með félaginu til hagsbótar fyrir alla hluthafa. Það er eigi að síður ljóst fyrir okkur nú að núverandi stjórn félagsins starfar ekki til hagsbóta fyrir hluthafa." Björgólfur Thor segir að þeir hafi þess vegna ekki átt annars úrkosta en að fara með málið til hluthafa.