Björgólfur Thor Björgólfsson skrifar í pistli á heimasíðu sinni að Iceland Foods sé í eigu Landsbankans eftir að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans höfðu skafið allt fé úr fyrirtækinu og í kjölfarið misst það til lánardrottna. Tilefni skrifanna er pistill Bubba Morthens.

„Að tala um að Jón Ásgeir og félagar hafi skilið eftir sig eignir, sem nú komi til bjargar, lýsir takmörkuðu viðskiptaviti og gagnrýnislausu hugarfari.“ segir í pistli Björgólfs þar sem vísað er í skrif Bubba Morthens. „DV fjallar í dag um hvernig stóð á því að Landsbankinn og aðrir kröfuhafar eignuðust Iceland Foods með réttu. Þar er skýrt frá því hvernig Landsbankinn brást við til að tryggja að hann fengi lán sín til skráðra eigenda Iceland Foods greidd. Þá ráðstöfun kynnti viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, Pálmi Haraldsson, sem „Íslandsmet í hagnaði“. Sú fullyrðing hans var byggð á álíka miklu viðskiptaviti og sannleiksást og pistill Bubba.“

Þá segir Björgólfur: „Loks er rétt að minna á, að heildarskuldir Baugs og tengdra félaga voru gríðarmiklar. Þrátt fyrir að Landsbankinn nái að selja Iceland Foods á góðu verði, jafnvel á þá 2-300 milljarða sem Bubbi nefnir, er langur vegur þar til þær skuldir teljast fullgreiddar. Og margar aðrar „gullgæsir“ í fyrrum eignasafni Baugs verpa tómum fúleggjum, svo ekki er mikils að vænta þaðan.“