Björgólfur Thor Björgólfsson hefur færst niður um eitt sæti á lista The Times yfir ríkustu íbúa Bretlands, eða úr sæti 91 árið 2019, í sæti 92 núna. Bakkavararbræður féllu niður um 73 sæti, en móðir Dorritar Moussaieff fyrrum forsetafrúar hækkaði um 13 sæti.

Er auður Björgólfs Thor sagður hafa minnkað um 91 milljón breskra punda, eða andvirði 16,3 milljarða íslenskra króna miðað við gengi krónunnar í dag, í umfjöllun breska blaðsins Sunday Times.

Þar er hann jafnframt sagður eini íslenski milljarðamæringurinn, þá væntanlega í pundum, en eignir hans eru þar metnar á 1,563 milljarða breskra punda, eða sem nemur um 279 milljörðum króna.

Í 320. sæti sitja þeir bræður Ágúst og Lýður Guðmundssynir, kenndir við fyrirtækis sitt Bakkavör, eftir að hafa fallið niður um 73 sæti, frá fyrra ári þegar þeir vermdu 247. sæti. Minnkaði auður þeirra um 150 milljónir punda, eða andvirði 26,8 milljarða króna, endað hann í 410 milljónum punda, andvirði 73,2 milljarða króna.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í mars féll andvirði eignarhluta Bakkavararbræðra um helming á einum mánuði, að miklu leiti til vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, en fyrirtæki þeirra þurfti snemma að loka starfsemi sem var einmitt í upphafsborg veirufaraldursins, Wuhan í Kína.

Nokkru neðar, eða í sæti 361. situr Alisa Moussaieff og fjölskylda hennar, sem Dorrit fyrrum forsetafrú tilheyrir, með auðæfi sem nema 363 milljónum punda, eða sem samsvarar 64,9 milljörðum íslenskra króna. Fjölskyldan hefur hækkað um 13 sæti milli ára, en auðurinn, sem byggir á skartgripaveldi fjölskyldunnar, jókst um 13 milljónir punda.

Ítarlegri umfjöllun um eina íslenska milljarðamæringinn en flesta

Í blaðinu er stutt ágrip yfir sögu þessara helstu auðjöfra heimsins, en textinn um Björgólf Thor er í lengra lagi en flestra, þar sem sagt er frá því hvernig hann eignaðist sínar fyrstu 100 milljón Bandaríkjadala árið 2002 með sölu Bravo öl- og gosdrykkjaverksmiðjunnar sem hann byggði upp í Rússlandi.

Síðan er sagt frá því að hann hafi endað uppi með að skulda 350 milljón evrur í kjölfar fjármálahrunsins við fall Landsbankans, og hafi þurft að senda frá sér opinbera afsökunarbeiðni til íslensku þjóðarinnar þar sem hann baðst afsökunar á bólunni sem hann hafi hjálpað til við að mynda. Jafnframt hafi hann hætt við að kaupa 100 milljóna punda lystisnekkju.

Loks er sagt frá sögu föður hans, Björgólfs Guðmundssonar og langafa, Thor Jensen, sem báðir þurftu að fara í gegnum gjaldþrot og Björgólfur yngri sagður hafa viljað gera allt til að hljóta ekki sömu örlög. Með flóknum samningum hafi honum tekist að halda í mikið af fjárfestingum sínum sem hafi tekist að halda á floti, og síðan hafi hann fjárfest til að mynda í heimsendingarþjónustunni Deliveroo og Zwift sem sé vinsælt meðal miðaldra hjólreiðarmanna.

„Bakkabræður“ og gullmiðir Gengis Khan

Í frásögninni um Bakkavarabræður er sagt frá því að fyrirtæki þeirra, Bakkavör, sé leiðandi birgi fyrir tilbúna rétti í verslunum Tesco, Sainsbury´s og fleiri verslunarkeðjum, en þeir „Bakka bræður“ hafi eignast 158 milljónir punda þegar fyrirtækið var sett á markað árið 2017.

Það sé nú verðmetið á 610,7 milljónir punda, en hlutur bræðranna hafi minnkað um 125,6 milljónir á innan við ári og nemi nú 306,6 milljónum punda, en þeir hafi fengið 5,8 milljónir punda í arðgreiðslu árið 2018.

Í umfjöllun um auð Moussaieff fjölskyldunnar er hún sögð vera afkomendur gullsmiða Gengis Khan, og hin 90 ára gamla Alissa, móðir Dorritar, sögð eigandi einnar verðmætustu gull og demantagerðar heims. Er til dæmis talað um sölu fjölskyldunnar á bleikum 3,43 karata demantshring á uppboði Christie´s í Hong Kong á síðasta ári fyrir 5,82 milljónir punda.