*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Innlent 3. maí 2012 07:10

Björgólfur Thor hálfnaður með skuldauppgjör

Björgólfur Thor losnar við stærsta kröfuhafann, Deutsche Bank, eftir að hafa selt Actavis með tæplega eins milljarðs evra afföllum.

Gísli Freyr Valdórsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

 

Með sölunni á Actavis hefur Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður og fjárfestir, stigið stórt skref í skuldauppgjöri sínu við kröfuhafa. Sem kunnugt er var í síðustu viku gengið frá kaupum bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis fyrir 4,25 milljarða evra, eða um 700 milljarða króna. 

Stærsti hluti þess fjármagns rennur til helsta kröfuhafa Björgólfs Thors, þýska bankans Deutsche Bank. Þá fær Björgólfur Thor stóran hlut í Watson sem hann hyggst eiga um sinn. Salan er háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum en ef fer sem horfir tekur Watson við félaginu í árslok. 

Björgólfur Thor segist í samtali við Viðskiptablaðið vera ánægður með söluna. Hún sé í takt við væntingar hans og samlegðaráhrif Actavis og Watson séu mikil. 

Aðspurður um stöðuna á skuldauppgjöri sínu segist Björgólfur Thor hafa gert upp tæpan helming skulda sinna með sölunni á Actavis. Deutche Bank tók þátt í því að lána félögum í eigu Björgólfs Thors um 4,1 milljarð evra til að kaupa upp öll hlutabréf í Actavis vorið 2007. 

 

Fjallað er um skuldauppgjör Björgólfs Thors í Viðskiptablaðinu sem kemur út í dag. Þá rifjar blaðið upp kaup Björgólfs Thors á Actavis sumarið 2007, sem voru stærstu viðskipti íslandssögunnar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.